12. Knitr

Í kafla 1 er fjallað um hvernig við getum framkvæmt tölfræðiúrvinnslu með því að skrifa skipanir í skipanaskrá (.R). Ef við þurfum að skrifa skýrslu, grein eða annað þar sem úrvinnslunni og niðurstöðum hennar er lýst þyrftum við að færa niðurstöðuna inn í það umhverfi sem við kjósum að nota til að skrifa skýrsluna (Word, LibreOffice, LaTeX, …). Í því felst að afrita (e. copy) niðurstöður frá R og líma (e. paste) þær svo inn í viðkomandi ritvinnsluforrit. Ýmislegt getur farið úrskeiðis í því ferli.

Pakkinn knitr gerir okkur kleift að prjóna saman texta, fagrar jöfnur og R-kóða í eitt og sama skjalið. Helsti kosturinn er að greiningin sem við erum að framkvæma fléttast inn í textann og óþarfi er að klippa og líma úttök, myndir og töflur úr R inn í annað ritvinnsluforrit. Annar stór kostur er að greiningin uppfærist sjálfkrafa þó svo að gögnin sem notast er við breytist, ekki þarf að endurgera töflur og myndir og líma þær á ný inn í skýrsluna.

Áður en pakkinn er notaður þarf að hlaða honum niður með install.packages() eins og aðra pakka. Hér verður stiklað á stóru um notkun pakkans en lesa má meira um pakkann hér:

http://yihui.name/knitr/.

Ef þið lendið í vandræðum með að sækja pakkann er sennilegt að þið séuð ekki með nýjustu útgáfuna af R og eða RStudio, þá þurfið þið að uppfæra útgáfurnar ykkar.

Eins og kom fram hér að ofan er greiningin og skýrslan unnin í einu og sama skjalinu þegar unnið er með knitr. Það fer eftir því hvaða tæki og tól við viljum nota við umbrot á textanum og hvaða snið (format) við kjósum á skýrslunni okkar (.pdf, .docx eða .html) af hvaða gerð skjalið sem við vinnum í verður (.Rmd eða .Rnw). Vinnulagið er svipað en í öllum tilvikum mun skjalið okkar samanstanda af haus (e. preamble), texta, R-klumpum (e. R-chunks) og mögulega jöfnum skrifaðar í LaTeX. R-kóði sem við viljum að sé keyrður þarf að vera í R-klumpum í skjalinu okkar, annars er litið á hann sem venjulegan texta. Þó er einnig er hægt að kalla á R-úttök í textann en hvernig að þessu er staðið fer eftir hvaða snið er valið.

12.1. Umbrot á texta

Áður en vinnslan hefst er nauðsynlegt að ákveða hvaða tól eigi að nota við umbrot á texta og á hvaða sniði skýrslan á að vera. LaTeX notendur geta á auðveldan hátt prjónað saman LaTeX kóða og R-kóða en það er ekki nauðsynlegt að tileinka sér LaTeX til að nota knitr. Annar möguleiki er til staðar en það er að nota ívafsmálið (e. markup language) Markdown en það er mjög einfalt í notkun.

12.1.1. Markdown (.html eða .docx)

Til að búa til nýja R-Markdown skrá í RStudio veljið File, New File og R Markdown. Þar eruð þið beðin um að velja á hvaða sniði skýrslan á að vera. Ef Word er valið þarf Word að vera uppsett á vélinni. Ef PDF er valið þarf TeX að vera uppsett á vélinni. Ávallt er hægt að velja HTML. Til verður .Rmd- skrá. Skráin sem opnast inniheldur sýnishorn af nokkrum skipunum sem þið getið eytt. Þið skuluð þó halda í hausinn, þar sem þið setjið inn nafnið ykkar og titil á skýrsluna. Gætið þess að breyta ekki hausnum of mikið eftirá, það gæti valdið villum sem orsaka það að skjalið keyrist ekki.

Mynd

Þegar .Rmd skrá er opnuð í RStudio birtist Knit HTML eða Knit Word takki (í efri vinstra glugganum) eftir því hvaða snið var valið. Þegar ýtt er á takkann keyrast allar R-skipanir sem eru innan í R-klumpum nema annað sé sérstaklega tekið fram (sjá hér að neðan). Til verður .html eða .docx skjal sem ber sama heiti og .Rmd skráin ykkar. Nýju skrána má finna í sömu möppu og .Rmd skrána ykkar. Þið verðið að vista (e. save) .Rmd skrána ykkar áður en þið ýtið á Knit HTML takkann. Ef eitthvað er ekki eins og það á að vera birtast rauð villuskilaboð í keyrslugluggann og ekki verður til .html/.doc - skjal. Skoðið villuskilaboðin, lagið villuna og ýtið svo aftur á Knit takkann.

Eins og fram kom hér að ofan skrifum við R-kóða í klumpa. Við byrjum R-klump á ```{r} svo skrifum við R-skipun/skipanir og til að loka klumpnum notum við ```. Línurnar tvær má fá á auðveldan hátt með að velja Chunks og Insert chunks eða halda niðri Ctrl, Alt og I. Hér er dæmigerður R-klumpur í .Rmd skrá:

```{r}
puls<-read.table("pulsAll.csv",sep=";",header=T)
```

Þær R-skipanir sem eru í klumpum keyrast þegar ýtt er á Knit takkann nema annað sé tekið fram (sjá hér að neðan). Sé skipun ekki hluti af R-klump er litið á hana sem venjulegan texta. Úttök þeirra skipana sem eru í klumpunum birtast svo í skýrslunni (svo sem töflur og myndir). Hlutir sem er smíðaðir í klumpum verða ekki til í vinnusvæðinu okkar en til að búa þá til þar þurfum við að keyra þær skipanir á sama hátt og áður (með að halda niðri + á MacOs en Ctrl + á Windows/linux). Einnig er hægt að keyra allar R-skipanirnar í einu með að velja Chunks og Run All.

Það er líka hægt að að láta R reikna fyrir okkur og birta svarið inn í texta. Viljum við t.d. tilgreina gildið á meðalhæð einstaklinganna í puls gagnasafninu getum við skrifað eftirfarandi í .Rmd skrána okkar:

Meðalhæð einstaklinganna er `r mean(puls$haed)`

og útkoma mean(puls$haed) mun birtast í .html skjalinu.

Það er fyrir utan efni þessarar bókar að fjalla í smáatriðum um ívafsmálið Markdown. Aðeins verður fjallað um það helsta hér en við hvetjum ykkur til að skoða efni sem finna má á netinu.

Fyrstu línurnar í .Rmd skjali geta verið eftirfarandi:

---
title: "Skilaverkefni"
author: "Sigrún Anna Bjarkadóttir - sigrunannabjarka@hi.is"
output: html_document
---

Þið ráðið hvort þið hafið dagsetninguna líka inni.

Við notum myllumerki (#) til að tákna fyrirsagnir. Letrið minnkar með fleiri myllumerkjum:

# Þetta verður mjög stór fyrirsögn
## Þessi fyrirsögn verður minni
### Þessi fyrirsögn verður enn minni

Auðvelt er að skáletra og feitletra orð:

*Þetta verður skáletrað* og **þetta verður feitletrað** en þessi
texti verður hvorki skáletraður  feitletraður.

Viljum við útbúa lista gerum við það svona:

Trallalallalaaa

- það þarf  passa  það 
- auð lína fyrir ofan og neðan...

Dúddiraríreiii.

12.1.2. LaTeX (.pdf)\(^\ast\)

Það er fyrir utan efni þessara bókar að kenna á LaTeX en finna má ógrynni af efni um LaTeX á netinu. Í þessum undirkafla er því gert ráð fyrir LaTeX kunnáttu.

Áður en knitr kom á markaðinn mátti nota Sweave til að tvinna saman LaTeX og R-kóða. Það má vera að áður en R-LaTeX skrá er keyrð í fyrsta skipti þurfi að breyta stillingu í RStudio. Það er gert með að velja Tools, Global Options og í vinstri stikunni velja Sweave svo Weave Rnw files using og velja knitr - þetta þarf aðeins að gera einu sinni.

Til að búa til nýja R-LaTeX skrá í RStudio veljið File, New File og R Sweave. Þá verður til .Rnw skrá. Í henni má finna lítinn haus (e. preamble) og enda (e. postamble). Hægt er að vinna með þennan haus eða líma þann haus sem þið eruð vön að nota inn í skjalið. Þið getið svo notað þær LaTeX skipanir sem þið eruð vön að nota en bætið svo við R-klumpum með greiningunni ykkar. R-klumparnir eru ekki á sama formi og þegar Markdown er notað.

Við byrjum R-klump á <<>>= svo skrifum við R-skipun/skipanir og til að loka klumpnum skrifum við @. Línurnar tvær má fá á auðveldan hátt með að velja Chunks og Insert chunks eða halda niðri Ctrl, Alt og I. Hér er dæmigerður R-klumpur í .Rnw skrá:

<<>>=

puls<-read.table("pulsAll.csv",sep=";",header=T)

@

Líkt og þegar unnið er í Markdown er hægt að láta R reikna fyrir okkur og birta svarið inn í texta. Viljum við t.d. tilgreina gildið á meðalhæð einstaklinganna í puls gagnasafninu getum við skrifað eftirfarandi í .Rnw skrána okkar:

Meðalhæð einstaklinganna er \Sexpr{mean(puls$haed)}

og útkoma mean(puls$haed) mun birtast í .pdf skjalinu.

12.2. Jöfnur

Eins og fram kom hér að ofan er LaTeX kunnátta ekki nauðsynleg þegar unnið er með knitr pakkann en einn af styrkleikum LaTeX er hversu auðvelt er að skrifa stærðfræðitákn og hversu fögur útkoman verður. Þó ekki sé unnið með LaTeX snið er hægt að tvinna LaTeX jöfnur inn í Markup textann. Við sýnum aðeins eitt lítið dæmi hér fyrir neðan en hvetjum þá sem ekki hafa notað LaTeX kynna sér málið frekar.

Hægt er að nota stærðfræðitákn inni í textanum og skrifa jöfnur/stæður sem standa einar og sér:

Viljum við nota stærðfræðitákn inni í texta notum við eitt
dollaramerki: Meðaltal úrtaks táknum við með gríska bókstafnum $\mu$.
Viljum við láta jöfnur/stæður standa einar í línu notum við tvö
dollaramerki:

$$

\bar{x} = \frac{\sum_{i=1}^{n}x_i}{n}.

$$

Textinn hér að ofan birtist svona:

Viljum við nota stærðfræðitákn inni í texta notum við eitt dollaramerki: Meðaltal úrtaks táknum við með gríska bókstafnum \(\mu\). Viljum við láta jöfnur/stæður standa einar og sér notum við tvö dollaramerki:

\[\bar{x} = \frac{\sum_{i=1}^{n}x_i}{n}.\]

Ef unnið er í Markdown og villa leynist í LaTeX kóðanum birtist kassi sem inniheldur LaTeX kóðann í .html skjalinu, ekki jafnan sjálf. Þá þurfið þið að laga villuna og ýta svo aftur á Knit takkann.

12.3. Klumpastillingar

Á milli R-klumpa getið þið skrifað texta sem lýsir greiningunni sem þið eruð að framkvæma. Sjálfgefnu stillingar R-klumpa eru:

  • skipanir sem í þeim eru birtast í .html skjalinu í gráum kassa

  • skipanir sem í þeim eru keyrast

  • úttakið sem skipanirnar skila birtist í .html skjalinu. Þetta getur verið útkoma, mynd og fleira.

Klumpana má mata með ýmsum stillingum og má sjá nokkrar þeirra hér að neðan:

Heiti stillingar

Mögulegar stillingar

Virkni

eval

T eða F

Ef T þá keyrist kóðinn (sjálfgefið)
Ef F þá keyrist kóðinn ekki

echo

T eða F

Ef T þá birtist kóðinn í .html skalinu (sjálfgefið)
Ef F þá birtist kóðinn ekki

results

„markup“, „hide“ …

Ef „markup“ (sjálfgefið) þá birtist það
sem aðferðin skilar í .html skalinu
Ef „hide“ er kóðinn keyrður en úttakið birtist ekki

fig.width

tala

Breidd myndar í tommum

fig.height

tala

Hæð myndar í tommum

Lista yfir allar stillingar má finna hér:

http://yihui.name/knitr/options/.

Viljum við t.d. lesa inn pakka með library() aðferðinni en viljum ekki að kóðinn birtist í .html skjalinu okkar notum við:

```{r, echo = F}
library(ggplot2)
```

Þá keyrist library(ggplot2) en skipunin birtist ekki í .html skjalinu. Munið að ef þið ætlið að nota aðferðir í pakka sem ekki er hluti af grunnpökkum R (t.d. ggplot2 pakkinn) þurfið þið að nota library() aðferðina til að sækja pakkann.

Viljum við teikna stöplarit, stjórna stærðinni á myndinni en láta aðeins myndina birtast i .html skjalinu, ekki R-kóðann, gerum við það með:

```{r, echo=F, fig.width=5, fig.height=3}
ggplot(puls, aes(x=namskeid)) + geom_bar() + xlab("Námskeið") +
ylab("Fjöldi")
```

12.4. Leiksvæði fyrir R kóða

Hér fyrir neðan er hægt að skrifa R kóða og keyra hann. Notið þetta svæði til að prófa ykkur áfram með skipanir kaflans. Athugið að við höfum þegar sett inn skipun til að lesa inn puls gögnin sem eru notuð gegnum alla bókina.

# Gogn sott og sett i breytuna puls. puls <- read.table ("https://raw.githubusercontent.com/edbook/haskoli-islands/main/pulsAll.csv", header=TRUE, sep=";") # Setjid ykkar eigin koda her fyrir nedan: # Sem daemi, skipunin head(puls) skilar fyrstu nokkrar radirnar i gognunum # asamt dalkarheitum. head(puls)